Fjármálaeftirlitið hefur gert athugun á umfangi þjónustu fjármálafyrirtækja við lögaðila sem skráðir eru í lágskattaríkjum. Þetta gerði eftirlitið í tilefni af opinberri umfjöllun um svonefnd Panama-skjöl, en þar var meðal annars fjallað um þjónustu viðskiptabanka á Norðurlöndunum í tengslum við stofnun og rekstur svonefndra aflandsfélaga.

Óskað var eftir upplýsingum um hvort fjármálafyrirtæki hefðu, með beinum hætti eða í samstarfi við annan aðila, haft milligöngu um stofnun lögaðila í lágskattaríki eða veitt viðskiptavinum þjónustu er tengist slíkum lögaðilum.

Fjármálafyrirtæki hafa hvorki með beinum hætti né í samstarfi við annan aðila haft milligöngu um stofnun lögaðila í lágskattaríkjum frá haustinu 2008, ef marka má þær upplýsingar sem Fjármálaráðuneytið hlaut frá fjármálafyrirtækjunum sem um ræðir.

Fjármálafyrirtæki veita þó lögaðilum í lágskattaríkjum ýmis konar þjónustu á borð við innláns- og vörslureikninga, lánafyrirgreiðslu og verðbréfaþjónustu. Samkvæmt upplýsingum Fjármálaeftirlitsins er slík umsýslan óveruleg.

Fjármálaeftirlitið óskaði einnig eftir upplýsingum um fjárfestingar lífeyrissjóða og vátryggingafélaga í lágskattaríkjum. Samkvæmt upplýsingum sem bárust Fjármálaeftirlitinu hafa lífeyrissjóðir og vátryggingafélög fjárfest í lögaðilum skráðum í lágskattaríkjum en slíkar fjárfestingar eru óverulegur hluti eignasafns lífeyrissjóða og vátryggingafélaga.

Umsögn Fjármálaeftirlitsins um máið má lesa í heild sinni hér .