Fjárfestingasjóður á vegum GAMMA hefur á fjárfest í yfir 100 íbúðum miðsvæðis í Reykjavík á undanförnum mánuðum. Frá þessu var greint í fréttum Stöðvar tvö kvöld og eru fjárfestingarnar sagðar nema um fjórum milljörðum króna.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá á dögunum stofnaði GAMMA nýverið umræddan fasteignasjóð. Sjóðurinn er ætlaður fagfjárfesta og byggir á spám um að húsnæðisverð miðsvæðis í höfuðborginni muni vaxa á komandi árum. Þessar spár eru meðal annars studdar af því að lítið hefur verið byggt frá hruni, eftirspurn ungs fólks eftir fasteignum hefur aukist og mannfjöldi vaxið.

Auk fasteignasjóðs GAMMA má nefna fjölda fasteignasjóða, s.s. Fasteignasjóð Íslands, sem rekinn er af MP banka, fasteignasjóð Stefnis og Fast-1 sem VÍB rekur. Þessir sjóðir leggja flestir áherslu á atvinnuhúsnæði með það að markmiði að fá leigtekjur af eignum.