Arion banki, sem á stærstan hlut í Símanum, seldi í dag 5% hlut í fyrirtækinu til hóps erlendra og innlendra fjárfesta og þar á meðal nokkurra stjórnenda Símasamstæðunnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Símanum.

Þar segir að hópurinn sé leiddur af hollenska fjárfestinum Bertrand Kan en það var Orri Hauksson, forstjóri Símans sem hafði frumkvæði að því að setja hópinn saman.  Eftir söluna á Arion banki 33% hlut í Símanum. Orri fer með um 0,4% hlut í Símanum eftir viðskiptin.

Þá ætlar stjórn Símans að leggja til á næsta hluthafafundi að starfsmenn Símans fái tækifæri til þess að eignast hlut í Símanum eftir að hann fer á markað. Verði tillagan samþykkt munu starfsmenn Símans geta fest sér hlutabréf og kosið að innleysa þau  að ári eða framlengja kaupréttinn til allt að fimm ára.

Markmiðið með valréttaráætluninni er að samþætta hagsmuni starfsmanna samstæðunnar við langtímamarkmið Símans, auka tryggð starfsfólks og langtímahugsun. Gangi félaginu fjárhagslega vel má vænta þess að verð hlutabréfa hækki og munu starfsmennirnir þá njóta þess,“ segir Orri Hauksson forstjóri Símans um tillögu stjórnarinnar. „Með fimm ára fyrirkomulaginu er girt fyrir áhættusækni til skamms tíma. Valrétturinn á að auka virði fyrirtækisins til lengri tíma litið og gera það að eftirsóttari fjárfestingu og framúrskarandi vinnustað.“

Valréttaráætlunin mun ná til allra fastráðinna starfsmanna Símans hf. og dótturfélaga annarra en Mílu. Starfsmenn geta á þessum fimm árum tryggt sér bréf fyrir allt að sex hundruð þúsund krónur árlega, í samræmi við heimild í skattalögum. Starfsmenn Mílu eru undanskildir þar sem samkomulag við Samkeppniseftirlitið tryggir rekstrarlegt sjálfstæði Mílu ehf. á allan hátt.

Ragna Margrét Norðdahl, mannauðsstjóri Símans, segir tillögu stjórnarinnar spennandi fyrir starfsfólk og áhugaverða leið til þess að efla það í störfum sínum fyrir Símann. „Valréttaráætlunin veitir möguleika á kjarabótum umfram launahækkanir þegar vel gengur og er því mikil hvatning til þess að sjá árangur af  eigin starfi. Starfsfólk stýrir því sjálft hvernig það nýtir sér þau tækifæri sem í áætluninni felast. Vilji fólk ekki taka neina áhættu getur það engu að síður notið ávöxtunar.“