Fjármögnunarkostnaður á ítölsk ríkisskuldabréf rauk upp í hæstu hæðir í morgun eftir að Yves Mersch, einn af stjórnarmönnum hjá evrópska seðlabankanum, sagði það hafa komið til tals að hætta kaupum á bréfunum.

Evrópski seðlabankinn hefur nú um nokkurt skeið keypt skuldabréf skuldsettra evruríkja og auðvelda þar með fjármögnun þeirra þegar dyr að öðru lánsfé eru þeim lokaðar

Á fundi þjóðarleiðtoga ESB-ríkjanan í Brussel fyrir um hálfum mánuði þar sem reynt var til þrautar að teikna upp áætlun til að forða Grikklandi frá gjaldþroti og koma öðrum skuldsettum evruríkjum í skjól undan krumlum kreppunnar var Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu tekinn á teppið og þrýst á að hann leggði fram áætlun um niðurskurð í útgjöldum ítalska ríkisins. Forsætisráðherra mætti með plagg í þá átt á neyðarfund þjóðarleiðtoganna í Cannes í Frakklandi í síðustu viku sem olli vonbrigðum.

Fjárfestar virðast hafa litla trú á að ítalska ríkið nái að taka upp hollari lifnaðarhætti í ríkisrekstri. Ávöxtunarkrafa á skuldabréf ríkisins til tíu ára rauk upp um 0,24% í morgun og fór krafan við það í 6,58%. Krafa á fimm ára skuldabréf fór á sama tíma í 6,45%.

Í bandaríska dagblaðinu Wall Street Journal í dag kemur fram að nokkrir greinendur telji 6,5% kröfu á skuldabréf ítalska ríkisins ekki mega verða meiri. Fari hún yfir mörkin geti ríkið ekki fjármagnað sig.