Einhverjar stærstu fréttir í Kauphöllinni þar sem af er ári eru líklega innkoma fasteignafélaganna Reita og Eikar á Aðalmarkaðinn í lok apríl. Nú eru komin þrjú fasteignafélög í Kauphöllina en Reginn var skráður á markað árið 2012.

Tíðindalítil uppgjör

Að mati greiningaraðila kom fátt á óvart í uppgjöri fyrsta ársfjórðungs hjá félögunum þremur. Reitir högnuðust um 834 milljónir, Eik um 879 milljónir en Reginn nokkru minna, um 574 milljónir. Leigutekjur lækkuðu á milli ára hjá öllum félögunum. Hæstu leigutekjurnar á tímabilinu höfðu Reitir eða 2.112 milljónir króna en þar á eftir kom Eik með 1.338 milljónir og Reginn með 1.107 milljónir. Útleiguhlutfall Regins var hæst, 97% en þar á eftir komu Reitir með 96% á meðan 92% af eignum Eikar voru í útleigu. NOI-hlutfall (e. net operating income ratio), hlutfall leigutekna sem stendur eftir þegar búið er að draga frá rekstrarkostnað, var 75,6% hjá Eik á meðan það hlutfall var í kringum 72% Reginn og Reitum.

Fjárfestar sýna lítinn áhuga

Innkoma Reita og Eikar á markaðinn gaf fjárfestum aukin tækifæri til að fjárfesta í og fræðast um fasteignamarkaðinn í heild en svo virðist sem markaðurinn hafi brugð­ ist við skráningu þeirra af litlum áhuga enn sem komið er. „Þetta stýrist kannski af áhugaleysi,“ segir Sveinn Þórarinsson hjá Hagfræðideild Landsbankans um viðbrögð fjárfesta. „Þetta eru þrjú félög og menn úthluta ákveðnu hlutfalli af sínum sjóði í fasteignamarkaðinn. Það eru fleiri óskráð verkefni sem eru enn í gangi og menn eru kannski með of mörg verkefni í sínu eignasafni. Menn eru ekki að veðja á mikla hækkun til skamms tíma hjá fasteignafélögum. Það er erfitt að átta sig nákvæmlega á því af hverju áhuginn er svona lítill. Það gæti verið vegna aðstæðna almennt í efnahagslífinu,“ segir hann en þar vísar hann til óstöðugleika vegna óvissu um kjarasamninga undanfarið.

Nánar er fjallað um málið í fylgiriti Viðskiptablaðsins Úr Kauphöllinni. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .