Hlutabréfavísitölur enduðu beggja vegna núllsins í Asíu í dag. Sérfræðingar á fjármálamörkuðum segja fjárfesta halda að sér höndum og bíða eftir því hvernig aðgerðaáætlun leiðtoga aðildarríkja Evrópusambandsins sem leggja á fram á fundi þeirra á sunnudag muni líta út.

Sérfræðingur hjá Credit Agricole sagði í samtali við bandaríska stórblaðið Wall Street Journal í dag að fjárfestar vilji sjá hvernig framhaldið komi til með að líta út áður en þeir taki næstu skref.

Viðræður leiðtoganna um helgina snúa öðru fremur um stækkun á björgunarsjóði sambandsins sem lönd í skuldakreppu eiga að geta leitað til þegar harðnar í ári.

Talsverð ábyrgð er sögð hvíla á herðum þeirra Nicolas Sarkozy, forseta Frakklands, og Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, enda leiðtogar umsvifamestu hagkerfa evrusvæðisins. Þau skötuhjú reyndu að koma sér saman um lendingu í málinu á fundi sínum síðdegis á miðvikudag án þess að komast að niðurstöðu.

Nikkei-vísitalan í kauphöllinni í Japan lækkaði um 0,04% og S&P/ASX 200-vísitalan í Ástralíu lækkaði um 0,1% á sama tíma og Taiex-vísitalan í Taívan hækkaði um 0,1%. Svipaða sögu var að segja um aðrar hlutabréfavísitölur í Asíu að Kospi-vísitölunni í S-Kóreu undanskilinni. Hún hækkaði um heil 1,8%. Erlendir fjölmiðlar, svo sem Reuters og Wall Street Journal, segja hækkunin skýrast af ágætum uppgjörum tæknifyrirtækja og verktakafyrirtækja.