Gengi hlutabréfa lækkaði almennt í fjármálamörkuðum í Asíu í nótt. Breska ríkisútvarpið ( BBC ) segir ástæðuna ótta fjárfesta við að bandarískir þingmenn nái ekki saman um útgjaldalið fjárlaga og hækkun á skuldaþaki hins opinbera áður en nýr dagur rennur upp. Gangi það ekki geti svo farið að dyrum einhverra ríkisstofnana verði lokað.

Nikkei-hlutabréfavísitalan lækkaði um 1,6%, Hang Seng-vísitalan í Hong Kong lækkaði um 1,2% og ASX-vísitalan í Ástralíu lækkaði um 1,4%.

Þá hafa hlutabréfavísitölur á evrópskum mörkuðum jafnframt lækkað. FTSE-vísitalan í Bretlandi hefur lækkað um 0,78%, DAX-vísitalan í Þýskalandi hefur lækkað um 1% og CAC 40-vísitalan í Frakklandi hefur frá upphafi viðskiptadagsins lækkað um 1,08%.