Það má segja sem svo að skuldabréfamarkaðurinn sé í ákveðinni bið­stöðu vegna kjarasamninga um þessar mundir. Áhyggjur fjárfesta vegna hækkandi verðbólgu sjást glögglega á muninum á ávöxtunarkröfu verðtryggðra og óverð­tryggðra skuldabréfa. Til að mynda var munurinn á ávöxtunarkröfu verðtryggða flokksins RIKS 21 0414 og óverðtryggða flokksins RIKB 22 1026 2,7% í lok janúar en hann var um 4,4% fyrr í vikunni. Til útskýringar þá sjást væntingar um aukna verðbólgu einna helst í aukinni eftirspurn eftir verðtryggðum skuldabréfum sem hækkar verð þeirra og lækkar ávöxtunarkröfuna.

Samband ávöxtunarkröfu og verðs skuldabréfa er öfugt. Þegar ávöxtunarkrafa á markaði lækkar þá hækkar verð skuldabréfa. Ef markaðurinn væntir þess að Seðlabankinn bregðist við verð­bólgu með vaxtahækkun þá hækkar yfirleitt ávöxtunarkrafa á óverð­tryggðum bréfum. Þannig má gera ráð fyrir því að fjárfestar sjái fram á að háar nafnlaunakröfur verði samþykktar í næstu kjarasamningum og að í kjölfar þeirra hækki verðbólga og stýrivextir Seðlabankans sömuleiðis. Sé litið til vísitalna GAMMA fyrir verðbréfamarkaðinn sést að óverðtryggða vísitalan hefur farið ört lækkandi frá áramótum og verð­ tryggða hækkandi en til samanburð­ar er hlutabréfavísitala GAMMA komin á par við verðtryggðu skuldabréfavísitöluna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.