Viðræður standa yfir um kaup fjárfesta á Víkurprjóni í Vík í Mýrdal. Tvö tilboð hafa borist í fyrirtækið og munu fleiri fjárfestar vera áhugasamir á hliðarlínunni. Þórir Kjartansson, stofnandi og framkvæmdastjóri Víkurprjóns, segir það ráðast um næstu helgi hvort af samningum verði. Hann vildi hvorki segja hversu há tilboð hafa borist í reksturinn né um hvaða fjárfesta er að ræða. Þeir eru ekki frá Suðurlandi, að sögn Þóris.

Víkurprjón
Víkurprjón

„Ég held að það sé bjart framundan í ullariðnaði og því góður tími til að kaupa fyrirtækið,“ segir Þórir í samtali við Viðskiptablaðið. Hann segir að aukning í ferðamennsku, bæði yfir sumartímann sem að vetri sé að skila sér.

Þórir stofnaði Víkurprjón fyrir 32 árum og er fyrirtækið með þeim þekktari í ullariðnaði hér á landi. Það hefur verið til sölu um nokkurra missera skeið en áhugi fjárfesta kviknað fyrir alvöru fyrir skömmu. Þórir á sjálfur 13% hlut í Víkurprjóni en aðrir fjárfestar afganginn. Þár á meðal á Atvinnuþróunarsjóður Suðurlands 11,6% hlut.

Víkurprjón hagnaðist um tæpar 14,4 milljónir króna árið 2010 samanborið við 24,3 milljónir árið 2009. Tekjur hafa aukist jafnt og þétt eftir hrun, þar af á bilinu 10-20% á milli ára, að sögn Þóris. Upplýsingar um veltu og rekstrarhagnað eru af fremur skornum skammti í síðasta uppgjöri Víkurprjóns fyrir árið 2010. Þó kemur fram að fremur litlar skuldir hvíldu á rekstrinum. Heildarskuldir í lok árs 2010 voru 98,9 milljónir króna. Þar af voru rúmar 6,6 milljónir króna langtímaskuldir. Afgangurinn voru m.a. hlaupareikningslán, viðskiptaskuldir og ógreidd launatengd gjöld.

Ef af verður munu nýir hluthafar eignast Víkurprjón með manni og mús. Á síðasta ári voru heilsársstörf 17 talsins hjá Víkurprjóni en yfir 20 yfir sumartímann. Þórir gerir hins vegar ekki ráð fyrir að starfa hjá fyrirtækinu eftir að nýir eigendur taka við því.