Í tækniheimum vestra er líkt og febrúar árið 2000 sé runninn upp á ný, að minnsta kosti ef miðað er við Nasdaq hlutabréfavísitöluna, en tæknifyrirtæki eru áberandi á henni. Í síðustu viku náði vísitalan hæðum sem hún hefur ekki náð frá því rétt áður en tæknibólan fræga sprakk í marsmánuði 2000.

Fyrir svartsýna er þetta merki um að markaður með tæknihlutabréf sé orðinn froðukenndur. Gengi hlutabréfa félaga eins og Facebook, Twitter, Arm Holdings, Tesla og fyrirtækja í líftækniiðnaði skipta um hendur á verði sem sumir eiga erfitt með að skilja. Facebook greiddi nýlega 19 milljarða dala fyrir fyrirtækið WhatsApp, sem er um 345 milljónir dala á hvern starfsmann. Fjöldi dýrra fyrirtækja hefur ekki verið meiri frá því að bólan sprakk, en hér er um að ræða fyrirtæki sem eru verðmetin á meira en tuttugufaldan hagnað eða tífaldan hagnað og eigið fé samanlagt.

Það þarf því ekki að koma á óvart að eigendur fyrirtækjanna hafa nýtt tækifærið til að innleysa hagnað. Það sem af er ári hafa fleiri fyrirtæki verið skráð á markað í Bandaríkjunum en á nokkru öðru ári síðan árið 2000. Líftæknifyrirtæki hafa verið sérstaklega dugleg að nýta sér áhuga fjárfesta á áhættusömum fjárfestingum í hlutabréfum, en í Evrópu eru það einkum netsölufyrirtæki sem hafa verið skráð á markað. Oft eru það stofnendur og framtaksfjárfestar sem hafa verið að innleysa hagnað, en einnig eru dæmi um að fyrirtæki séu að nota útboð til að ná í laust fé.

Almennt eru menn sammála um ástæður þessarar uppsveiflu. Áralangur veikleiki í hagkerfum heimsins hefur gert það að verkum að erfiðara er fyrir fjárfesta að ná sæmilegri ávöxtun í hefðbundnari fjárfestingum og því hafa þeir leitað í tæknifyrirtækin í staðinn. „Fjárfestar eru tilbúnir núna til að vona og láta sig dreyma í staðinn fyrir að einblína á mögulegt tap og þessi tilhneiging leiðir þá í átt að tæknifyrirtækjum,“ segir Mark Haefele, yfirmaður fjárfestinga hjá UBS Wealth Management.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .