„Það hefur greinilega átt sér stað umbreyting í hagkerfinu. Eftir mikla endurreisn og erfiða tíma er Ísland að koma réttu megin út úr kreppunni, á meðan færa má rök fyrir því að stórir hlutar Evrópu séu enn að takast á við ákveðin verkefni.“

Þetta segir Phil Poole, yfirmaður greiningardeildar hjá eignastýringu Deutsche Bank, í samtali við Viðskiptablaðið. Poole var hér á landi á dögunum ásamt Erik Rotander, sem stýrir hlutlausri eignastýringu Deutsche Bank á Norðurlöndum, til að kynna þjónustu sína fyrir fagfjárfestum.

Poole segir að sú umbreyting sem hefur átt sér stað í íslenska hagkerfinu veiti aðilum á borð við Deutsche Bank aukin tækifæri til að veita íslenskum fagfjárfestum ráðgjöf. „Þetta er fjárfestahópur sem við eigum aukið erindi við í ljósi þess hvar þið eruð stödd í umbreytingunni úr erfiðu ástandi og vegna þess að það er líklegt að fjármagnshöft verði losuð í skrefum,“ segir hann.

Virði til lengri tíma

Poole segir að byrjun ársins hafi verið fjárfestum erfið. Eignastýring Deutsche hafi minnkað vægi hlutabréfa í blönduðum eignasöfnum sínum, en vegna þess hve skuldabréf veita lága ávöxtun um þessar mundir séu hlutabréf í eðli sínu enn áhugaverður fjárfestingarkostur. Þýskir og svissneskir fjárfestar – þar sem ávöxtunarkrafa jafnvel langra ríkisskuldabréfa er neikvæð – þurfi að líta til áhættusamra eigna til að fá jákvæða ávöxtun á eignasafn sitt.

„Það er almennt ekki góð hugmynd að reyna að grípa hníf í frjálsu falli og það er það sem við sjáum í augnablikinu,“ segir Poole um markaðinn. „En einhvern tímann mun skriðþunginn minnka og þá held ég að fólk muni líta á það sem góðan tíma til að auka vægi hlutabréfa í eignasafni sínu. Evrópa, Japan, Bandaríkin – þessir markaðir hafa allir verið seldir mikið og við sjáum svo sannarlega virði til lengri tíma. Spurningin er hvenær er skynsamlegt að fara inn.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .