Nasdaq á Norðurlöndunum hefur samið við greiningarfyrirtækið Morningstar um að bjóða upp á „Company Fact Sheet“-þjónustu fyrir skráð fyrirtæki á markaðnum. Þetta kemur fram í tilkynningu .

Með þjónustunni munu fjárfestar fá aðgang að lykilupplýsingum fyrir fleiri en 800 fyrirtæki sem skráð eru á aðalmörkuðum Nasdaq á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum. Um er að ræða tveggja síðna yfirlit fyrir hvert skráð félag sem mun innihalda upplýsingar um fleiri en 100 undirstöðuatriði, þar á meðal fjárhagsupplýsingar og frammistöðugreiningu.

Þjónustan er ókeypis og verða gögnin uppfærð daglega. Þjónustan verður aðgengileg til niðurhals á vefsíðum Nasdaq Nordic og Eystrasaltsríkjanna.

„Nýja Company Fact Sheet þjónustan er svar við aukinni eftirspurn á meðal almennra fjárfesta eftir upplýsingum um skráðu fyrirtækin okkar sem hægt er að nálgast með skjótum og auðveldum hætti,“ sagði Adam Kostyál, Senior Vice President og yfirmaður skráninga hjá Nasdaq. „Í takt við áherslur í samnorrænu verkefni okkar um aukinn kraft í nýskráningum, þá er markmiðið að styrkja verðbréfamarkaðinn fyrir skráð fyrirtæki með því að bjóða fjárfestum upp á tól til að taka upplýstari fjárfestingarákvarðanir.“