Arion banki lækkaði í síðustu viku fasta verðtryggða fasteignalánavexti um 0,75 prósentustig (75 punkta) í 1,49% og eru þeir nú þeir lægstu á markaðnum, einum punkti undir Íslandsbanka, sem lækkaði sömu vexti um 45 punkta í desember í 1,5%.

Sjá einnig: Hlýr faðmur verðtryggingarinnar

Breytilegir verðtryggðir vextir voru einnig lækkaðir, en þó mun minna eða um 35 punkta í 1,89%. Þar með eru þeir að sama skapi lægstir meðal viðskiptabankanna sem nemur einum punkti, en breytilegir verðtryggðir vextir Landsbankans hafa lengi verið 1,9%. Sumir lífeyrissjóðir bjóða þó betur í þeim flokki.

Iða Brá Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs hjá Arion, segir vaxtalækkunina einkum skýrast af auknum áhuga fjárfesta á verðtryggðum bréfum bankans og þeirri lækkun á ávöxtunarkröfu slíkra bréfa sem því hefur fylgt.

„Eftirspurnin hjá fjárfestum er eftir verðtryggðum sértryggðum bréfum þessa dagana. Við viljum auðvitað bjóða upp á samkeppnishæf kjör fyrir viðskiptavini okkar og þarna sáum við tækifæri til þess að bæta þau í þessum flokki.“

Krafan lækkað um 50 punkta
Ávöxtunarkrafa Arion CBI 25 – verðtryggðs sértryggðs skuldabréfs Arion banka með gjalddaga árið 2025 – hefur lækkað um tæpa 50 punkta síðastliðinn rúma mánuð og er nú orðin neikvæð um 0,1%.

„Krafan á sértryggðum óverðtryggðum bréfum hefur á móti hækkað mikið og það er ekki mikil eftirspurn eftir þeim nema á mjög háu verði,“ segir Iða enn fremur, en á sama tíma hefur ávöxtunarkrafa óverðtryggða bréfsins Arion CB 24 hækkað um tæpa 80 punkta.

Það sem af er ári hefur verðbólga verið langt yfir því sem spáð hafði verið og hefur nú ekki verið meiri í áratug. Seðlabankinn lækkaði stýrivexti um 75 punkta á síðasta ákvörðunarfundi peningastefnunefndar og frekari hækkanir eru í farvatninu.

Iða segir lækkun föstu útlánavaxtanna vissulega hafa verið meiri en á ávöxtunarkröfu bréfanna. „Það má alveg segja að við höfum aðeins gefið eftir álagningu á þessum lánum.“

Vöxtum sé hins vegar ekki breytt daglega eins og þróun kröfunnar, og útlit sé fyrir að eftirspurn eftir verðtryggðum bréfum verði áfram sterk á næstunni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .