Gengi hlutabréfa í bandarísku íbúðalánasjóðunum Fannie Mae og Freddie Mac hafa lækkað gríðarlega á síðustu dögum eftir ákvörðun dómara, sem þykir benda til þess að almennir hluthafar muni ekki fá neinn hluta af hagnaði sjóðanna tveggja. Kemur þetta fram í frétt Forbes.

Í kjölfar fjárkreppunnar 2008 bjargaði bandaríska ríkið sjóðunum tveimur með því að dæla tæplega 190 milljörðum dala inn í sjóðina. Þeir hafa nú náð vopnum sínum og skila myndarlegum hagnaði, en hann hefur allur runnið til bandaríska ríkisins í formi arðgreiðslna.

Fjárfestar, sem annað hvort keyptu víkjandi skuldabréf eða hlutabréf í sjóðunum, höfðuðu mál og töldu þetta stangast á við lög. Vildu þeir fá sinn hlut af arðgreiðslunum. Dómari í málinu sagði hins vegar að framkvæmdin væri í samræmi við löggjöf sem samþykkt var árið 2008 og að hún kæmi í veg fyrir að dómarar hnikuðu henni. Vísaði hann málinu því frá.

Á síðustu tveimur dögum hefur gengi hlutabréfa í sjóðunum tveimur lækkað um nær 40%.