Búist er við því að fjárfestar í Rússlandi færi jafnvirði allt að 70 milljarða dala úr landi á fyrsta ársfjórðungi. Helsta ástæðan er sögð ótti þeirra við neikvæð áhrif á efnahagslíf í Rússlandi í kjölfar innlimunar á Krímskaga í Rússland. Fréttaskýrandi breska dagblaðsins Financial Times segir upphæðina á milli 65 - 70 milljarða dala og megi búast við því að hún verði í efri kantinum.

Þetta er fjórum sinnum meira fjármagn en var flutt frá Rússlandi á fjórða ársfjórðungi í fyrra.

Í umfjöllun Financial Times segir að helsta ástæðan fyrir fjármagnsflóttanum séu hótanir um viðskiptaþvinganir, sem óttast er að geti haft mjög neikvæðar afleiðingar á hagkerfi Rússlands. Það mældist 0,3% hagvöxtur í febrúar og 0,1% hagvöxtur í janúar. Á síðasta ári öllu mældist svo 1,3% hagvöxtur.