Fjárfestar virðast forðast áhættu og hafa verið að losa fjármagn, sem hefur leitt til þess að hlutabréfamarkaðir víða um heim hafa fallið verulega síðustu vikur, segir í skýrslu frá Bank of International Settlements (BIS).

BIS segir ákveðinn atburð eða fréttir ekki hafa valdið lækkunum á mörkuðum, en bendir á að væntingar um vaxtahækkanir og vaxandi verðbólguþrýsting ýta undir lækkanir.

Flótti fjárfesta gæti gefið til kynna að leitinni eftir hárri ávöxtun er lokið, segir BIS, en búist er við að vextir fari hækkandi í Evrópu, Japan og í Bandaríkjunum.

Greiningaraðilar búast við áframhaldandi hækkun stýrivaxta á Íslandi, en verðbólga jókst um 1,16% í júní frá fyrra mánuði og er nú 8% á ársgrundvelli.