Breskir fjölmiðlar greindu frá því í gær að stjórnarmenn frá breska knattspyrnuliðinu West Ham United væru staddir í Dubai til að ræða við fjárfesta sem vilja kaupa 50% hlut Straums fjárfestingarbanka í félaginu.

David Sullivan og David Gold keyptu í upphafi árs helmingshlut í West Ham af Straumi og tóku í kjölfarið yfir rekstur þess.

Lengi hefur legið fyrir að Straumur vill selja þann eignarhlut sem bankinn heldur enn á, fáist fyrir hann rétt verð. Því fóru Sullivan og Karen Brady, varaformaður stjórnar West Ham, til Dubai til að hitta þarlenda fjárfesta sem hafa áhuga á að kaupa hlutinn.

West Ham komst í eigu Straums eftir að bankinn gjaldfelldi lán til félaga í eigu Björgólfs Guðmundssonar, en hann keypti félagið á haustmánuðum 2006.

Liðið er sem stendur í mikilli fallhættu og hefur tapað sex leikjum í röð í ensku úrvaldsdeildinni. Falli West Ham um deild mun það verða liðinu mikið fjárhagslegt áfall.