Fjárfestar frá Qatar skoðuðu á fyrri hluta síðasta árs möguleika á að kaupa 20% hlut í Kaupþingi banka og skoðuð um leið mögulega aðkomu bankans að verkefnum við Persaflóann en bankinn rak þá útibú í Dubai.

Að sögn Ólafs Ólafssonar fjárfestis hefði innkoma fjárfestanna frá Qatar getað fært Kaupþing banka verulegan ávinning.

Ólafur sagði að vegna persónulegra tengsla hans hefði verið komið á samskiptum við stjórnvöld og fjárfesta í Qatar. Haldnir hefðu verið fimm fundir með fjárfestum frá Qatar á fyrri hluta síðasta árs og framundir mitt ár, meðal annars með forsætisráðherra landsins. Fundirnir hefðu snúist um aðkomu þeirra að verkefnum með Kaupþingi. ,,Þau verkefni hefðu getað fært Kaupþingi mikil viðskipti í þessum heimshluta,” sagði Ólafur. Fundirnir voru haldnir á mismunandi stöðum, bæði í Qatar og Evrópu.

Þessir fundir leiddu að sögn Ólafs til þess að Qatar-menn gerðu ítarlega úttekt á Kaupþingi. Í framhaldi þess lýstu þeir yfir áhuga sínum á að kaupa allt að 20% hlut í Kaupþingi en heimild var fyrir hendi frá síðasta aðalfundi félagsins fyrir allt að 20% hlutafjáraukningu. Þá aukningu lýstu þeir yfir áhuga á að kaupa með eingreiðslu eiginfjár, sagði Ólafur í samtali við Viðskiptablaðið.

Ólafur sagði að það tilboð hefði verið byggt á V/I hlutfall bankans (e. Price To Book) og án viðskiptavildar. Stjórnendur bankans töldu það tilboð lágt enda var staða Kaupþings góð á þessum tíma sagði Ólafur.

Það kom ennfremur fram hjá Ólafi að forráðamenn Kaupþings og fjárfestarnir frá Qatar hefðu verið sammála um að taka upp málið aftur eftir Ramadan-mánuðinn (föstumánuð múslima) sem lauk í lok september en skömmu síðar hrundi íslenska bankakerfið og áformin fóru út um þúfur.

Að sögn Ólafs voru kaup Al Thani í Kaupþingi óháð þessum áformum. Þess má geta að fjárfestar frá Qatar eru stærstu hluthafar í Barclays-banka.