Iceland Water Holdings, vatnsátöppunarfyrirtæki í Þorlákshöfn sem framleiðir undir nafninu Icelandic Glacial , vinnur nú að því að fá nýtt hlutafé í félagið en það hyggst afla 30 milljóna evra í núverandi hlutafjárútboði eða um 2,7 milljarða króna. Ragnar Birgisson, forstjóri Iceland Water Holdings, sagði í samtali við Viðskiptablaðið sem kom út í dag að loforð væru komin fyrir hluta þess, meðal annars frá fjárfestum á Spáni og í Austurríki.

Sömuleiðis eru viðræður í gangi við bandarískan aðila sem að sögn Ragnars hefur áhuga á umtalsverðri fjárfestingu í félaginu. "Þetta er allt í fullri vinnslu og við erum bjartsýnir á að ljúka þessu innan skamms," sagði Ragnar.

Félagið hefur ráðið bandaríska fjárfestingabankann JP Morgan til þess að hafa milligöngu um að afla þess hlutafjár sem þarf til þess að reisa nýja vatnsátöppunarverksmiðju í landi Hlíðarenda í Ölfusi.

Að sögn Ragnars er verið að vinna útboðsgögn vegna byggingar nýrrar verksmiðju og um leið er unnið að því að skoða kaup á nýjum vélum og hafa meðal annars verið skoðaðar vélar á Ítalíu. Teikningar vegna byggingarinnar liggja að mestu fyrir og er gert ráð fyrir að verkið fari í útboðsferli um leið og fjármögnun er lokið. Ragnar tók fram að þeir væru ekki búnir að klára eitt né neitt en átti von á að innan skamms yrði allt komið á fulla ferð. "Við erum að ljúka ákvörðun um vélar og tæki og semja um verð þeirra."

Eins og komið hefur fram áður hér í Viðskiptablaðinu er ekki gert ráð fyrir að íslenskir fjárfestar tengist fyrirtækinu að öðru leyti en því sem fellst í eignarhlut stofnendanna. Ragnar sagðist halda að íslenskir fjárfestar tryðu ekki lengur á möguleika vatnsútflutnings. Það breytti því ekki að félagið er nú þegar í umtalsverðum vatnsútflutningi og hyggst margfalda hann með nýrri verksmiðju. Um tíma var ætlunin að byggja verksmiðjuna í Þorlákshöfn og hafði félagið fengið 80.000 fermetra lóð þar. Horfið var frá því og jörðin Hlíðarendi keypt og því nálægt vatnslindunum en vatnið sem félagið selur er tekið úr lindum við rætur Hellisheiðar.