Titrings gætir á fjármálamörkuðum í Evrópu í dag vegna bágborinnar stöðu portúgalska bankans Baco Espirito Santo. Móðurfélag bankans hefur ekki staðið við skuldbingar sínar og hefur gengi bréfa í honum hrunið um rúm 17%. Svipaða sögu er að segja um gengi bréfa í fleiri fjármálafyrirtækjum Í Portúgal.

Bandaríska dagblaðið The Wall Street Journal segir fjárfesta óttast að staða bankans og eigenda hans geti verið einkennandi fyrir fjármálageira Portúgal. Áhrifanna af heilsubresti banka í Portúgal upp á síðkastið hefur smitað út frá sér yfir á aðra markaði, s.s. til Spánar en þar hefur gengi hlutabréfa í fjármálafyrirtækjum lækkað mikið í dag.

Hlutabréfamarkaðir í öðrum löndum hafa heldur ekki farið varhluta af þessu.

IBEX-vísitalan í kauphöllinni á Spáni hefur fallið um 2,54% það sem af er degi, FTSE-vísitalan í Bretlandi hefur lækkað um 0,85%, DAX-vísitalan í Þýskalandi hefur lækkað um 1,5% og CAC 40-vísitalan í Frakklandi líka um 1,5%.