Fyrirtækið AEX Gold sem áður hét Alopex á gullnámu á Grænlandi auk gullleitarleyfa sem er um 3.356 ferkílómetrar að stærð. Eldur Ólafsson, einn af stofnendum og framkvæmdastjóri félagsins, segir að hjá fyrirtækinu sé rík áhersla lögð á græna gullvinnslu en AEX Gold hyggst hefja framleiðslu á gulli eftir 18 mánuði. „Það sem gerir okkur ólíka öðrum í þessum geira er að við erum að framleiða gullið á umhverfisvænan hátt.

Við köllum þetta „green ethical gold“ en þá erum við sem sagt að nýta okkur rafmagn sem við getum framleitt að hluta til með vindi og að hluta til með vatnsafli,“ segir Eldur og bætir við að fyrirtækið muni einnig ráðast í skógrækt og landgræðslu. „Jökullinn er tiltölulega nýbúinn að skrapa þetta land þannig að það er ekki mikið um gróður á þessu svæði. Við hyggjumst framleiða þannig að svokallað kolefnisfótspor verði neikvætt.“

Hlutabréfaverð í AEX Gold hefur hækkað talsvert mikið á þessu ári. Ástæðan fyrir því segir Eldur sé sú að það sé sívaxandi eftirspurn eftir gulli og hversu mikið gullverð hafi hækkað að undanförnu. „Þeir fjárfestar sem fjárfestu upphaflega hjá okkur hafa tvöfaldað upphaflegu fjárfestingarnar sínar. Geirinn hefur verið í ákveðinni varnarbaráttu síðustu árin líkt og Ísland var eftir hrun. Geirinn var yfirskuldsettur og hefur farið í gegnum endurskipulagningu síðustu sjö árin. Síðan er eftirspurnin eftir gulli mikil og ekki aðeins eftir gulli í giftingarhringa heldur líka hjá almennum fjárfestum, seðlabönkum og tæknigeiranum.“

Eldur segir að mörg af stærstu námuvinnslufélögum í heimi eins og Anglo American og Rio Tinto hafi farið að sýna Grænlandi áhuga. Í kjölfar þess hafi Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, beint sjónum heimsbyggðarinnar að landinu þegar hann tilkynnti það að Bandaríkin myndu mögulega kaupa Grænland.

„Það sem við gerðum fyrir nokkru síðan er að við keyptum upp öll gullleitarleyfin. Lengi vel vorum við gagnrýnd fyrir þá stefnu okkar en nú er fólk farið að átta sig á því að það er bara til takmarkað magn af auðlindum í heiminum. Til þess að vera græn í sínu umhverfi þá þarftu málma og fólk vill ekki ná í þessa málma í Namibíu eða Rússlandi þar sem reglur og lög geta verið óskýr og fólk veit ekki alveg hvað er að gerast. Donald Trump benti á hversu miklar auðlindir Grænland hefur og auðvitað höfðu orð hans mikil áhrif.“

Eldur segir að hann vilji ýta undir íslenska tengingu hjá fyrirtækinu. „Við viljum bjóða Sigurbjörn Þorkelsson, eiganda og stjórnarformann Fossa, velkominn í stjórn félagsins, við sjáum fyrir okkur að 20-30% af vinnuafli í verkefnunum okkar verði íslenskt. Við erum mjög þakklát fyrir stuðning íslenskra fjárfesta hingað til en þeir eiga um 20-30% af félaginu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .