Gengi hlutabréfa á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hefur almennt lækkað í dag. Ástæðan er væntanlegur fundur bankastjórnar bandaríska seðlabankans sem hefst í dag.

Reuters-fréttastofan segir að gert sé ráð fyrir því að á fundinum verði tekin ákvörðun um að draga úr stuðningi við efnahagslífið. Seðlabankinn hefur fram til þessa keypt verðbréf og aðrar eignir af fjármálafyrirtækjum fyrir allt að 85 milljarða dala á mánuði. Búist er við því að upphæðin verði lækkuð um tíu milljarða. Reuters-fréttastofan segir fjárfesta ekki útilokað að lækkunin verði meiri.

Nikkei-hlutabréfavísitalan í Japan lækkaði um 0,7% við lokun markaða í Asíu í morgun þrátt fyrir að hann hafi verið lokaður í gær. Svipaða sögu er að segja af öðrum mörkuðum í Asíu. Þá lækkaði gengi hlutabréfa almennt við opnun evrópskra markað í morgun.

FTSE-vísitalan í Bretlandi hefur það sem af er degi lækkað um 0,37%, Dax-vísitalan í Þýskalandi lækkað um 0,26% og CAC 40-vísitalan í Frakklandi lækkað um 0,42%.