Líklegt er að gengi hlutabréfa Facebook muni leita niður á við eftir skráningu á hlutabréfamarkað. Þetta segir Mark Evan, greinahöfundur bandaríska viðskiptatímaritsins Forbes. Hann mælir með því að fjárfestar kaupi hlutabréf í fyrirtækinu þegar viðskipti hefjast, selji þau eins fljótt og þeir geta og hirði gróðann.

Hlutabréf Facebook verða skráð á hlutabréfamarkaði vestanhafs síðdegis á fimmtudag og verður opnað fyrir viðskipti á föstudag. Hlutafé fyrirtækisins var nýverið aukið. Gert er ráð fyrir að gengi hlutabréfa verði á bilinu 34 til 38 dalir á hlut. Miðað við að 421,2 milljón hlutir verði skráðir á markað mun markaðsverðmæti fyrirtækisins rjúfa hundrað milljarða dala múrinn. Fjárfestar hafa beðið með óþreyju eftir skráningu Facebook á markað og er hún talin verða með því merkasta frá kauphallarskráningu Google árið 2004.

Samfélagsbólan sprungin

Evan segir verðmatið á Facebook of hátt. Þótt ekki sé útlit fyrir að notendum Facebook muni fækka þá sé samfélagsmiðlabólan tekin að hjaðna. Facebook er því ekki jafn spennandi í augum netverja og áður auk þess sem fyrirtækið hefur ekki fundið sannfærandi leiðir til að auka tekjur sínar, svo sem af farsímahlutanum.

Þá bendir Evans á að fyrirtæki dragi orðið í efa kosti Facebook sem auglýsingamiðils þar sem notendur samfélagsmiðilsins skoða sjaldan auglýsingarnar. Þessu til staðfestingar hefur bandaríski bílarisinn General Motors hætt að auglýsa á almennum síðum Facebook.

General Motors greiddi 10 milljónir dala vegna auglýsinga á Facebook á síðasta ári. Til samanburðar námu auglýsingatekjur Facebook 3,7 milljörðum dala.

Hér má lesa grein Mark Evans