Nú þegar þingkosningar á Grikklandi eru að baki hafa alþjóðlegir fjárfestar beint sjónum sínum að skuldavanda Ítala og Spánverja á nýjan leik. Stjórnvöld þar í landi eru sögð hafa dregið andann léttar um stundarsakir enda stóð fjármálaheimurinn á öndinni yfir framtíð Grikklands.

Lántökukostnaður beggja landa rauk upp í morgun og er kominn í hæstu hæðir. Spánverjar flagga nú þeim vafasama heiðri að greiða 7% álag á ríkisskuldabréf til tíu ára. Það eru svipað álag og Ítalir flögguðu um það leyti sem Silvio Berlusconi hrökklaðist úr stóli forsætisráðherra í fyrra.

Marion Monti, forsætisráðherra Ítalíu, og Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, eru báðir staddir á fundi 20 helstu iðnríkja heims sem nú er haldinn í Mexíkó. Að sögn netmiðilsins Economic Times eru þeir í skýjunum með grísku þingkosningarnar þótt þeir telji enn margt eftir til að leysa úr skuldavandanum á evrusvæðinu.