„Við framlengdum hann í viku," segir Pétur J. Eiríksson, stjórnarformaður Sítusar,  í samtali við Viðskiptablaðið um frest sem þýska félagið World Leisure Investment fékk til að ljúka samningum um byggingu Marriot-hótels við ráðstefnu- og tónlistarhúsið Hörpu. Fresturinn gildir fram til á fimmtudag í þessari viku.

„Það er verið að ræða við þá [World Leisure] í tengslum við ákveðna fjárfesta,“ segir Pétur aðspurður um hvort viðræður við World Leisure Investment séu í tengslum við fjárfestingu Interhospitality Holdings sem er dótturfélag Ikea samsteypunnar. Greint var frá því í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins (RÚV) á mánudag í síðustu viku að eigendur lóðarinnar, félagið Sítus sem er í eigu ríkis og borgar, séu að missa þolinmæðina enda hafi viðræður í marga mánuði við forsvarsmenn World Leisure Investment engu skilað.

Áður hefur Viðskiptablaðið greint frá því að fyrsti fjárfestirinn sem ætlaði að fjármagna hótelbygginguna var krónprinsinn af Abu Dhabi. Hann missti áhugann þegar kynnt var fyrir honum þau vandamál sem fylgdu því að vera utan EES svæðisins og í kjölfarið var leitað til Interhospitality Holdings.