Gengi hlutabréfa í Asíu hækkaði talsvert í nótt og hafa hlutabréfavísitölur víða þar í álfunni ekki verið hærri í fimm ár. Gengishækkunin skýrist af því að ekki verði þrengt að aðgengi að lánsfjármagni í Kína eins og óttast var. Í síðustu viku urðu fjárfestar í austri áhyggjufullir vegna þeirra áforma stjórnvalda í Kína að herða á peningalegu aðhaldi þar í landi í því augnamiði að halda aftur af verðhækkunum. Það skilaði sér í því að MSCI-vísitalan í Asíu lækkaði um 1,1%. Þá skýrist hækkunin í Asíu jafnframt af gengishækkun á bandarískum fjármálamörkuðum, að sögn fréttastofu Reuters .

Nikkei-hlutabréfavísitalan í Japan hækkaði um 2,2% og gekk því 2,7% gengisfall á föstudag að hluta eftir. Þá hækkaði ástralska úrvalsvísitalan um 1% í nótt og hefur hún ekki verið skráð hærri í lok viðskiptadagsins í fimm ár. Svipaða sögu var að segja af öðrum hlutabréfamörkuðum í Asíu.