Gengi bæði hlutabréfa og gjaldmiðla lækkaði á helstu mörkuðum í Asíu í nótt. Ástæðan eru áhyggjur fjárfesta þar af því að bandaríski seðlabankinn ætti að draga úr stuðningi sínum við efnahagslífið, þ.e. kaupum á skuldabréfum sem hefur aukið lausafé í bönkum og fjármálafyrirtækjum.

Breska ríkisútvarpið ( BBC ) greinir frá því að gengi hlutabréfa í Indónesíu, Taílandi og á Filipseyjum hafi lækkað mikið en aðalvísitala hlutabréfa í kauphöll síðastalda landsins féll um meira en 6%. Þá hélt rúpían, gjaldmiðill Indverja, áfram að lækka og hefur gengi hans ekki verið lægri gagnvart öðrum myntum í þrjú ár. Gengi gjaldmiðla landanna þriggja hefur lækkað um 10-18% síðan í maí. Öðru máli gegndi um markaði í öðrum ríkjum, s.s. í Japan en Nikkei-vísitalan hækkaði um tæp 0,9% í nótt.

Samkvæmt minnispunktum sem bandaríski seðlabankinn birti í gær frá fundi bankastjórnar hans í síðasta mánuði kemur fram að uppkaup á skuldabréfum nemi 85 milljörðum dala á mánuði. Ekkert kom hins vegar fram um það hvenær stefnt er að því að draga úr kaupunum. Almennt er þó búist við því að byrjað verði á því í næsta mánuði.