Gengi hlutabréfa í bönkum og fjármálafyrirtækjum á meginlandi Evrópu hefur lækkað talsvert í dag þrátt fyrir að þeir flokkar hafi farið með sigur af hólmi í grísku þingkosningunum í gær sem styðja Evrópusambandið og þær aðhaldsaðgerðir sem landsmenn þurfa að taka á sig til að halda áfram að fá alþjóðlega lánafyrirgreiðslu.

Breska útvarpið, BBC, segir ástæðuna fyrir lækkuninni skýrast af því að enn sé óvíst hvort stjórnarmyndunarviðræður takist.

Þýskir og franskir bankar eiga talsvert undir því að Grikkir standi við skuldbindingar sínar. Í samræmi við það hefur gengi hlutabréfa Commerzbank fallið um 3,6% í dag og franska bankans BNP Paribas fallið um 3,3%. Þá hefur gengi bréfa Deutsche Bank lækkað um 1%. Breskir bankar fara ekki varhluta af þróuninni handar Ermarsundsins en gengi Royal Bank of Scotland féll um heil 4,4 áður en markaðir lokuðu.

Eins og til að bæta gráu ofan á svart hefur lántökukostnaður bæði Spánverja og Ítala rokið upp úr öllu valdi eftir að niðurstaða þingkosninganna lá fyrir. Álagið á spænsk ríkisskuldabréf til tíu ára stendur nú í rúmum 6,7% en var fyrr í dag í 7,1%. Þá er álagið á skuldir Ítala komið í 6%.