Verðbréfaeign fjárfesta hér á landi í Bandaríkjunum nam á síðasta ári 281,6 milljörðum íslenskra króna. Þetta var mesta verðbréfaeign innlendra aðila í útlöndum. Næst mest liggur í Lúxemborg en þar eiga innlendir fjárfestar 190 milljarða króna, að því er fram kemur í könnun Seðlabankans á landaskiptingu verðbréfaeignar . Þar kemur fram að verðbréfaeign innlendra aðila erlendis nam undir lok síðasta árs 1.229,2 milljörðum króna og hafði hún aukist um 147,9 milljarða frá árinu 2012. Lífeyrissjóðirnir eru umsvifamestu fjárfestarnir hér á landi en eignir þeirra í útlöndum námu í lok síðasta árs 595 milljörðum króna. Innlánsstofnanir í slitameðferð áttu á sama tíma 395 milljarða utan Íslands.

Á sama tíma kannaði Seðlabankinn verðbréfaeign erlendra aðila hér á landi. Hún nam 700 milljörðum króna í lok síðasta árs. Eign þeirra var mest í langtímaskuldaskjölum og nam 631 milljarði króna. Þeir sem áttu hér mest voru skráðir í Bandaríkjunum. Þeir áttu um 35% af innlendum verðbréfum í eigu erlendra aðila. Á eftir komu þeir sem skráðir eru í Lúxemborg með 34% af verðbréfaeign erlendra aðila hér á landi.