Hlutabréfamarkaðir víða um heim tók vel við sér í morgun eftir að þingmenn í fulltrúadeild bandaríska þingsins náðu saman um aðgerðir sem eiga að koma í veg fyrir að bandaríska hagkerfið lenti aftur ofan í kreppu. Fram kemur í upplýsingum um þróun hlutabréfavísitalna á vef breska ríkisútvarpsins (BBC) að hækkun á mörkuðum nemi um og yfir 2%.

FTSE-vísitalan í Bretlandi hefur það sem af er dags hækkað um 2,2%, Dax-vísitalan í Þýskalandi hefur hækkað um 2,28% og CAC 40-vísitalan í Frakklandi um 2,41%. Þá hefur IBEX-vísitalan á Spáni hækkað um 3,06%. Ítalskir fjárfestar voru jafnframt í góðum gír en aðalvísitalan þar í landi hækkaði um tæp 3% í morgun. Hlutabréfavísitölur í Asíu hækkuðu sömuleiðis í nótt þótt þróunin þar hafi ekki verið neitt í líkingu við þá í Evrópu. Af einstökum vísitölum fór Nikkei-vísitalan í Japan upp um 0,7%. Svipaða sögu er að segja af hlutabréfamörkuðum á Norðurlöndunum. Þar hefur aðalvísitalan í finnsku kauphöllinni hækkað mest eða um 3,87%. Minnst er hækkunin í Danmörku en C 20-vísitalan hefur hækkað um tæp 1,9%. Allt öðru máli gegnir um íslensku úrvalsvísitöluna en hún lækkaði um 0,17% fyrstu viðskiptum dagsins.

Fram kemur í umfjöllun um málið á vef breska dagblaðsins Financial Times að gengi hlutabréfa banka og fjármálafyrirtækja hafi hækkað umfram önnur.