Mikill meirihluta félaganna sem skráð eru í Kauphöllina eru með tekjur að miklu leyti eða nær öllu leyti í erlendri mynt á sama tíma og hlutabréf þeirra skráð í íslenskum krónum. Hagfræðideild Landsbankans veltir þessari tengingu fyrir sér í nýjasta tölublaði Hagsjár deildarinnar og veltir því upp að breytingar á gengi krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum ættu því að hafa áhrif á verðmæti þessara félaga mælt í krónum og með þeim hætti að hafa áhrif á verðþróun þeirra í Kauphöllinni.

Þetta er við um tekjur Marel, Eimskips, Össurar og Icelandair Group. Markaðsvirði félaganna nemur rúmum 300 milljörðum króna sem gerir um 72% af heildarmarkaðsvirði félaganna í Kauphöllinni. Hlutabréfamarkaðurinn ætti því að stjórnast að einhverju leyti af þróun á gengi krónunnar.

Hagfræðideildin skrifar:

„Til lengri tíma litið ættu félög með tekjur í erlendri mynt að sveiflast að einhverju leyti með gengisvísitölu krónunnar. Það ætti því að hafa áhrif á hegðun fjárfesta hér á landi í ljósi gjaldeyrishaftanna sem meina þeim að  taka beina stöðu á móti krónunni. Ef einhverjir fjárfestar eru t.d. á þeirri skoðun á gengi krónunnar komi til með að gefa verulega eftir á næstu árum kynni að vera heppilegt að fjárfesta í hlutabréfum með tekjur í erlendri mynt.“