Fjárfestar sem spenntir eru fyrir komu samfélagsmiðilsins Twitter á hlutabréfamarkað hlupu á sig í gær þegar þeir fjárfestu í gjaldþrota fyrirtæki með svipað nafn.

Tweeter Home Entertainment Group sem varð gjaldþrota árið 2008 var á hlutabréfamarkaði undir merkinu TWTRQ. Q-inu er yfirleitt bætt við þegar fyrirtæki eru gjaldþrota en eru enn með hlutabréf í viðskiptum. Misskilningurinn er skiljanlegur þar sem Twitter hyggst nota TWTR, sem merkið sitt þegar það fer á markað.

Á föstudaginn hækkuðu hlutabréfin í Tweeter mest upp í 15 sent á hlut sem er um 1.400% hækkun. Þetta gerðist í kjölfar þess að Twitter skilaði inn gögnum um 1 milljarðs dollara hlutafjárútboð sitt.

Bréfin voru verðmetin á 5 sent á hlut við lokun, sem er 700% hækkun.