Horft er til þess að fjármagna virkjanir á vegum Landsvirkjunar á næstu árum í auknum mæli með eigin fé fremur en lánsfé eins og gert hefur verið til þessa. Það þýðir að fjárfestar koma að virkjanaframkvæmdum á upphafsstigum sem samstarfsaðilar Landsvirkjunar og leggja til eigið fé í virkjanir sem síðan ávaxtast á löngum tíma.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, sagði í samtali við Viðskiptablaðið að fyrirtækið horfði m.a. til þessarar aðferðar við fjármögnun verkefna á næstunni. Hann segir að með þessu móti geti um 30% af fjármögnun í upphafi komið með eiginfjárframlagi frá fjárfestum sem yrðu samstarfsaðilar Landsvirkjunar í einstökum virkjanaframkvæmdum.

„Þetta er eitt af því sem við erum að skoða mjög alvarlega. Þessi leið gæti verið fýsileg og skynsamleg við þær aðstæður sem nú eru. Fjármögnun með þessum hætti snýst um að fá fjárfesta til að koma með eigið fé inn í verkefnin á upphafsstigum. Ég tel að það sé eðlilegt að miða við að eigið fé í svona verkefni sé um 30% í upphafi. Það er eðlilegt viðmið í stórum verkefnum. Það er í raun ekki eðlilegt að fjármagna stórframkvæmdir eingöngu með lánsfé. Það var mögulegt á tímabili en við þær markaðsaðstæður sem nú eru, þá tel ég að það sé skynsamlegast að hafa ákveðið hlutfall af heildarfjármögnunni með eigin fé. Til framtíðar litið myndi síðan Landsvirkjun verða að fullu eigandi að virkjunum,“ segir Hörður.

______________________________________

Sjá nánar í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.