Tilkynnt var nú síðdegis að íslenska leikjafyrirtækið Plain Vanilla, sem stendur á bakvið QuizUp leikinn, hafi tekist að safna 22 milljónum bandaríkjadala, eða um tveimur og hálfum milljarði íslenskra króna, frá fjárfestum. Fyrirtækið hefur því alls fengið yfir þrjá milljarða íslenskra króna í áhættufjármagn frá því að það var stofnað.

Þeir fjárfestar sem leggja nú fjármagn í Plain Vanilla eru hinir sömu og áður hafa lagt fé í fyrirtækið. Fjárfestingasjóðirnir Tencent Holdings og Sequoia Capital leiða fjárfestinguna. Í fréttatilkynningu frá Plain Vanilla kemur fram að þetta sé stærsta einstaka fjárfesting Sequoia Capital á árinu.

„Það er bæði ótrúlegt og skemmtilegt í senn að fylgjast með hinum miklu vinsældum sem QuizUp nýtur nú um allan heim,“ segir Þorsteinn Baldur Friðriksson, stofnandi og forstjóri Plain Vanilla, en frá því að leikurinn kom út í nóvember síðastliðnum hafa meira en 5 milljónir manna hlaðið leiknum niður á farsíma sína.

Fjárfestar unnið náið með tæknirisum

Virkni notenda í QuizUp er sögð mjög mikil en meðalnotandi QuizUp eyðir um hálftíma á hverjum degi í að skora fólk á hólm, fletta í gegnum spurningaflokka, senda vinum og kunningjum skilaboð og ræða við aðra notendur á spjallborðum. Skilaboðin sem notendur hafa sent innan leiksins eru orðin meira en 11 milljónir talsins.

„Virkni notenda innan QuizUp er stórkostleg,“ segir Roelof Botha, einn eigenda Sequoia Capital. „Þorsteinn Baldur og félagar hafa hitt á hið fullkomna jafnvægi mannlegra samskipta og leikjaspilunar sem höfðar til milljóna notenda um allan heim. Við erum í skýjunum með að fá að styðja við áframhaldandi vöxt Plain Vanilla og getum varla beðið eftir öllu sem er framundan á nýju ári.“

Sequoia Capital er þekkt fyrir að vinna með stofnendum fyrirtækja að því að breyta góðum hugmyndum í fyrirtæki sem geti lifað. Stjórnendur fyrirtækisins hafa meðal annars unnið náið með stofnendum þekktra tæknifyrirtækja, til að mynda Steve Jobs hjá Apple, Larry Ellison hjá Oracle, og Sergey Brin og Larry Page hjá Google.