Töluverð velta var með skuldabréf í Kauphöllinni í gær, annan daginn í röð, en veltan jókst talsvert á þriðjudagsmorgun eftir að forseti Íslands synjaði nýsettum lögum um ríkisábyrgð vegna Icesave staðfestingu.

Þannig nam heildarveltan í gær um 19,7 milljörðum króna. Þar af nam velta með óverðtryggð skuldabréf um 13,5 milljörðum króna og velta með verðtryggð skuldabréf um 6,2 milljörðum króna.

Skuldabréfavísitala GAMMA hækkaði í gær um 0,5%. Á sama tíma lækkaði GAMMAxi (óverðtryggð bréf) um 0,3%, eftir að hafa lækkað um 0,7% á þriðjudag sem var mesta lækkun óverðtryggðra bréfa í hálft ár, á meðan GAMMAi (verðtryggð bréf) hækkaði um 0,8%.

Þá hefur GAMMAi hækkað um 1,1% á einni viku á meðan GAMMAxi hefur lækkað um 1,3% á sama tíma.

Velta með skuldabréf hefur sem fyrr segir verið töluverð síðustu tvo daga eða um 36 milljarðar króna. Þar af hefur heildarvelta óverðtryggðra skuldabréfa numið um 27 milljörðum þannig að svo virðist sem fjárfestar séu í einhverju magni að losa sig við óverðtryggð skuldabréf.

„Áhrifin af því að ríki missi lánshæfi úr fjárfestingaflokki niður í ruslflokk eru alla jafnan mjög alvarlegar, einkum fyrir nafnvaxtabréf þar sem þau geta stuðlað að veikingu gjaldmiðilsins einkum vegna verri lánskjara og fjármagnsflótta úr viðkomandi landi,“ segir Agnar Tómas Möller, hagfræðingur hjá GAM Management (GAMMA) í samtali við Viðskiptablaðið.

„Því voru það viðbúin viðbrögð að óverðtryggð skuldabréf lækkuðu í verði en verðtryggð hækkuðu.“

Agnar Tómas segir að mikil verðhækkun lengstu íbúðabréfanna komi ef til vill á óvart í ljósi þess að þegar óvissa aukist jafnmikið og kjósi fjárfestar jafnan styttri bréf en lengri. Hins vegar geri gjaldeyrishöftin það verkum að áhrifin verða mun dempaðri en alla jafna og er ekki sé hægt að segja að verðlækkun sé mikil í ljósi þess að Ísland komst í gær í fyrsta sinn í „ruslflokk“.

„Eini raunverulegi valkostur fjárfesta við skuldabréf eru óverðtryggð innlán í bönkunum,“ segir Agnar Tómas.

„Vextir á innlánum eru í flestum tilvikum svipaðir eða lægri en á ríkisskuldabréfum og því spurning hvort fjármagn muni að nýju leita í óverðtryggð bréf á næstu misserum, þrátt fyrir að þróun undanfarinna daga hafi verið þeim óhagstæð, í ljósi þess að ávöxtunarkrafa verðtryggðra bréfa hefur lækkað nokkuð auk þess sem framboð þeirra er lítið.“