Hlutabréf í Kauphöllinni hafa lækkað mikið í verði á undanförnum dögum. Eftir miklar lækkanir hækkaði úrvalsvísitalan um 3,26% á þriðjudag, en lækkaði síðan um 2,16 prósent á miðvikudaginn. Við lokun markaðar á miðvikudaginn hafði úrvalsvísitalan lækkað um 6,9 prósent frá áramótum.

Lækkanirnar eru að uppistöðunni til viðbrögð við lækkunum á erlendum mörkuðum, en íslenski markaðurinn virðist bregðast meira við sveiflum erlendis heldur en hann hefur gert um langt skeið. Síðast þegar órói myndaðist á mörkuðum, í ágúst og september, lækkaði úrvalsvísitalan varla nokkuð. Eftir því sem styttist í afnám fjármagnshafta má vænta þess að hræringar erlendis hafi sífellt meiri áhrif á íslenska markaðinn, en það þarf þó ekki að vera eina skýringin á hinni snörpu lækkun.

Jóhann Viðar Ívarsson, sérfræðingur hjá IFS Greiningu, nefnir tvær aðrar mögulegar skýringar á því hvers vegna íslenski markaðurinn bregst öðruvísi við hræringum erlendis en áður. Í fyrsta lagi virðist sem fjárfestar séu minna stressaðir fyrir sveiflum snemma árs heldur en seint á árinu. „Það gera sér allir grein fyrir því að hlutabréfamarkaður á að sveiflast, hann á stundum að fara niður og stundum upp. Og besti tíminn upp á stressið í fjárfestum til að taka niðursveifluna er snemma á árinu, af því þá er svo mikill tími eftir til að vinna tapið eða lækkunina áður en árið er gert upp,“ segir Jóhann.

Í öðru lagi eru vísbendingar um vaxandi gírun, eða skuldsett hlutabréfakaup, á íslenska markaðnum. Íslenski markaðurinn tók á rás á síðasta ári og voru hækkanir nánast daglega. Að sögn Jóhanns er það oft við þær aðstæður sem menn fara að skuldsetja sig fyrir hlutabréfakaupum, sem getur upp að vissu marki skýrt hvað lækkunin hefur verið snörp.

„Í gíruðum stöðum eru menn hræddari við svona lækkanir. Þeir eru fljótari út. Það eykur aðeins niðursveifluna í verði.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .