Þrátt fyrir að hafa þjóðnýtt um 1.000 fyrirtæki frá því að hann tók við völdum í Venesúela hefur Hugo Chavez ekki reynst öllum fjárfestum illa. Þeir sem keypt hafa venesúelsk ríkisskuldabréf eru hæstánægðir með Chavez og sósíalíska ríkisstjórn hans, enda hafa þeir notið 14,7% meðalávöxtunar á ári frá 1999 og eru fáir fjárfestingarkostir sem gefið hafa jafnvel af sér á sama tíma.

Ástæðan er einföld. Þjóðnýtingarstefna Chavez og aðrar sambærilegar aðgerðir fældu frá fjárfesta í hrönnum og þrýstu ávöxtunarkröfunni á venesúelskum skuldabréfum yfir 12%, sem er fjórum prósentustigum hærri ávöxtunarkrafa en er á bréfum þróunarríkja. Þrátt fyrir þennan gríðarlega vaxtakostnað hefur ríkisstjórn Chavez aldrei misst af gjalddaga.

Sara Zervos, sjóðstjóri hjá fyrirtækinu OppenheimerFunds, segir í samtali við Bloomberg fréttastofuna að Chavez hafi lítið gott gert fyrir Venesúela, en hann hafi það að markmiði að borga af lánum landsins. Því sé mikill samhljómur með markmiðum Chavez og fjárfestanna.