Sjanghæ hlutabréfavísitalan í Kína féll um 8,3% í gær sem er næst mesta lækkun hlutabréfa þar í landi á einum degi í áratug, en gengi 818 félaga lækkaði á meðan aðeins sautján félög enduðu hærra. Þessi mikla lækkun á mörkuðum er rakin til þeirrar óvissu sem ríkir á meðal fjárfesta um hvort von sé á frekari aðgerðum stjórnvalda til að kæla hlutabréfamarkaðinn í Kína, en í síðustu viku ákvað ríkisstjórnin að þrefalda stimpilgjald sem lagt er á öll hlutabréfaviðskipti - úr 0,1% upp í 0,3% - og í kjölfarið féllu hlutabréfamarkaðir um meira en sex prósent. Í frétt Financial Times á sunnudaginn er greint frá því að sú ákvörðun kínverskra yfirvalda muni gera það að verkum að tekjur ríkisins muni aukast um 40 milljarða Bandaríkjadali, sem er ríflega sjö prósent af heildarútgjöldum ríkisstjórnarinnar.

Óðagot smárra fjárfesta
Frá því síðastliðinn þriðjudag hefur Sjanghæ vísitalan lækkað um 15,3% og endaði hún í 3.670 stigum þegar markaðir lokuðu í gær, sem er það lægsta síðan 25. apríl. Í frétt Reuters fréttastofunnar kemur fram að markaðsvirði fyrirtækja í Sjanghæ hlutabréfavísitölunni hafi minnkað um samtals 340 milljarða Bandaríkjadala á einni viku.

Þrátt fyrir að flestir séu á einu máli um að kínversk hlutabréf muni halda áfram að lækka á næstunni, eru uppi skiptar skoðanir um hversu miklar þær lækkanir eigi eftir að verða. Sumir sjóðsstjórar og sérfræðingar telja að fátt standi í vegi fyrir því að Sjanghæ vísitalan lækki enn frekar á næstu dögum og vikum. Hins vegar sé ósennilegt að um verði að ræða einhvers konar frjálst fall á gengi hlutabréfa.

Wang Jing, aðstoðarframkvæmdastjóri hjá Everbright Securities, segir í samtali við Reuters að einstaklingar og smáir fjárfestar hafi auðsýnilega tekið þá ákvörðun að selja hlutabréf sín í ákveðnu óðgoti, sökum þess að þeir hafi óttast hrun á mörkuðum og frekara inngrip stjórnvalda. Jing sagði að lækkanir síðustu daga væru eðlilegar í ljósi þess að hlutabréfamarkaðurinn hefði hækkað gífurlega undanfarin misseri - um meira en 60% á þessu ári og um tæplega 300% á síðastliðnum tveimur árum - og það þyrfti ekki að koma á óvart ef vísitalan færi niður fyrir 300 stig. Slík lækkun myndi þýða um 30% leiðréttingu á gengi hlutabréfa í Kína.

Frekari stjórnvaldsaðgerðir ósennilegar
Stjórnvöld reyndu á mánudaginn með áberandi hætti að fullvissa fjárfesta um að engin ástæða væri fyrir þá að fyllast einhverju óðagoti: Helstu dagblöðin í Kína - sem eru opinberar málpípur stjórnvalda - birtu leiðara þar sem því var haldið fram að horfurnar á mörkuðum væru góðar til lengri tíma litið. Ákvörðun kínverskra ráðamanna að hækka stimpilgjald á hlutabréfaviðskipti hafi einungis verið gerð með það að markmiði að minnka spákaupmennsku með hlutabréf. Þessi tilraun stjórnvalda mistókst aftur á móti: Milljónir einstaklinga og smærri fjárfesta sem hafa keypt hlutabréf undanfarna mánuði voru gripnir skelfingu í ljósi þess að þeir óttuðust að ávinningur þeirra á hlutabréfamarkaðinum yrði að engu á mjög skömmum tíma.

Í nýlegri skýrslu bandaríska fjárfestingarbankans Morgan Stanley segir meðal annars að stór hluti þeirra Kínverja sem hafi keypt hlutabréf undanfarin misseri horfi ekki til lengri tíma í fjárfestingum sínum. "Þegar þeir byrja að selja er óumflýjanlegt að markaðurinn leiðréttist. Hvort sú lending verði hörð eða mjúk sé hins vegar erfitt að spá fyrir um."

Flestir sérfræðingar um kínverska markaðinn hafa efasemdir um að stjórnvöld grípi til frekari aðgerða á næstunni. Helstu ráðamenn í Kína hafa ítrekað haldið því fram að öflugur hlutabréfamarkaður sé nauðsynlegur fyrir áframhaldandi efnahagsumbætur í landinu. Af þeim sökum sé ólíklegt að að stjórnvöld vilji stuðla að því að markaðurinn falli enn meira en nú þegar er orðið.