Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka, segir Icesave-málið síður en svo vera eina óvissuþáttinn sem tefur endurreisn efnahagslífsins og nefnir í því skyni m.a. þau átök sem staðið hafa yfir um fyrirkomulag  fiskveiða undanfarin tvö ár en vegna þeirra hefur engin fjárfesting átt sér stað í sjávarútvegi í langan tíma.

„Innlendir og erlendir fjárfestar óttast Ísland um þessar mundir. Hér er stjórnarfarsleg áhætta og lagaleg áhætta, auk óvissu um stöðu þjóðarbúsins. Fjárfestar horfa upp á að hér voru gerðir samningar um erlend lán til margra ára, sem eru síðan allt í einu dæmdir ólöglegir. Magma-málið hefur líka reynst skaðlegt, stjórnmálamenn hafa rætt um eignarnám og þjóðnýtingar eins og sjálfsagðan hlut. Þessu taka fjárfestar eftir og þykir of hættulegt til að koma nálægt. Fyrirtæki, almenningur og fjárfestar verða að vita að hverju verði gengið á næstu árum,“ segir Höskuldur í viðtalið við Morgunblaðið í morgun.

Hann segir endurreisnina þó ganga betur en á horfðist. „ Við höfum margt með okkur, erum rík af auðlindum, menntakerfið er gott, aldurssamsetning þjóðarinnar er hagstæð. Lífeyriskerfið er fullfjármagnað og skuldir þjóðarbúsins eru viðráðanlegar. Hvað stjórnvöld varðar þá hefur margt gott verið gert og ber þar hæst í okkar huga samkomulag vegna skuldavanda heimilanna og fyrirtækja,“ segir hann.