Hlutabréfaverð beggja vegna Atlantshafsins féll í dag, líkt og á Íslandi . Fjárfestar óttast afleiðingar nýrrar bylgju kórónuveirunnar og hertar sóttvarnaraðgerðir.

Dow Jones vísitalan hafði fallið um 2,4% um miðjan dag vestanhafs sem er það mesta á einum degi frá því í október. Þá lækkaði S&P500 vísitalan um 1,7% í fyrstu viðskiptum dagsins og Nasdaq vísitalan um 1,1% að því er WSJ greinir frá.

Hlutabréfavísitölur í Evrópu lækkuðu um yfir 2% í dag sem er það mesta í níu mánuði samkvæmt frétt Reuters. Hlutabréfavísitölur tenglar olíugeiranum og ferðaþjónustu í Evrópu eru nú  á áþekkum slóðum og í febrúar. Hin evrópska STOXX 600 vísitala féll um 2,3%, þýska DAX vísitalan um 2,6% og hin ítalska MIB um 3,3%.

Fjárfestar virðast sækja í öryggi ríkisskuldabréfa þar sem ávöxtunarkrafa bandarískra ríkisskuldabréfa féll í dag.

Þá féll olíuverð um 5,7% í 69 dollara á tunnu og hefur ekki verið lægra í hálft ár eftir að tilkynnt var um samkomulag OPEC-ríkjanna, Rússa og fleiri olíuframleiðsluríkja um að auka framleiðslu sína.