Össur hefur hækkað um 5% frá áramótum en mjög lítil viðskipti eru með hlutabréf í félaginu og virðast fjárfestar hafa lítinn áhuga á Össuri, að því er segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka. Greining telur að skýringu á þessu áhugaleysi megi m.a. finna í þröngu erlendu eignarhaldi og óþjálli tvískráningu félagsins í Kauphöllinni hér á landi sem og í Kaupmannahöfn.

„Vilji stjórnenda félagsins stóð til þess að félagið yrði afskráð úr Kauphöllinni hér á landi en tekið var fyrir það og Kauphöllin skráði félagið einhliða á markaði hér. Í kjölfarið er félagið skráð á tveimur stöðum í tveimur myntum sem í gjaldeyrishöftum skilar sér í flókinni og skrýtinni stöðu sem eflaust á stóran þátt í því að lítil viðskipti eru með félagið.“

Þá segir í Morgunkorninu að búast megi við hægum vexti í tekjum og framlegð Össurar á næstu misserum. „Einn stærsti áhrifaþátturinn er varðar tekjuaukningu félagsins er útgjaldageta til heilbrigðismála í Evrópu og í Bandaríkjunum og miðað við stöðu ríkisfjármála á þessum svæðum er aukning á útgjöldum til heilbrigðismála frekar ólíkleg. Gengi Össurar hækkaði um 5% á síðasta ári og var það minni ávöxtun en en önnur félög í Kauphöllinni skiluðu á sama tíma.“