Bandaríska fjármálafyrirtækið BTIG hefur uppfært mat sitt á Facbook og mælir nú með því að fjárfestar selji hlutabréf sín í félaginu í stað þess að halda þeim. BTIG segir líkur á að draga muni úr tekjum Facebook og muni þær fara úr 5 milljörðum dala í 4,9 milljarða á þessu ári en niður í 5,6 úr 5,9 á næsta ári.

Matið hafði neikvæð áhrif á gengi hlutabréfa Facebook, sem féll um rúm 3% í utanþingsviðskiptum. Þegar markaðir opnuðu vestanhafs í dag jafnaði gengið sig og lækkaði það aðeins um rúm 1,8%. Gengi hlutabréfa Facebook stendur nú í 20,54 dölum á hlut. Það er tæpum 50% lægra en þegar hlutabréf fyrirtækisins voru skráð á markað í maí.