Skráðir hlutabréfamarkaðir eru vettvangur sem kemur saman fyrirtækjum, sem vilja sækja sér fjármögnun, og almennum fjárfestum, sem vilja ávaxta fé. Í því skyni að greiða fyrir viðskiptum með hlutabréf þeirra félaga sem þar eru skráð, og stuðla að virkum og heilbrigðum markaði, setja bæði kauphallir og löggjafinn ýmsar reglur fyrir skráningu. Flestar snúa þær að upplýsingaskyldu útgefenda (fyrirtæki sem gefa út verðbréf), sem er mjög rík á skráðum mörkuðum.

Lög nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti fjalla um skyldur útgefanda. 120. grein þeirra skilgreinir innherjaupplýsingar á eftirfarandi hátt: Með innherjaupplýsingum er átt við nægjanlega tilgreindar upplýsingar sem ekki hafa verið gerðar opinberar og varða beint eða óbeint útgefendur fjármálagerninga, fjármálagerningana sjálfa eða önnur atriði og eru líklegar til að hafa marktæk áhrif á markaðsverð fjármálagerninganna ef opinberar væru.

Í 122. grein segir svo meðal annars: [Útgefanda] ber að birta almenningi á Evrópska efnahagssvæðinu allar þær innherjaupplýsingar sem varða hann eins fljótt og auðið er og á jafnræðisgrundvelli .

Í ræðu Jóns Þórs Sturlusonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Fjármálaeftirlitsins, á ársfundi eftirlitsins í maí, sagði hann meðal annars: „Fjármálaeftirlitið hefur beitt sér á undanförnum árum fyrir því að útgefendur á markaði birti innherjaupplýsingar tímanlega með það að markmiði að tryggja jafnræði á markaði. Hjá sumum útgefendum hefur tíðkast að bíða með birtingu þar til innherjaupplýsingar séu orðnar endanlegar. Slík framkvæmd er ekki til þess fallin að allir fjárfestar sitji við sama borð og er að mati Fjármálaeftirlitsins ekki í samræmi við gildandi lög. Því hefur Fjármálaeftirlitið séð ástæðu til að beita sér.“

Páll Friðriksson, framkvæmdastjóri markaða og verðbréfaviðskipta hjá Fjármálaeftirlitinu, segir það í vissum tilvikum geta verið erfitt að meta hvort upplýsingar séu innherjaupplýsingar eða ekki, þar sem um matskennt lagaákvæði sé að ræða. Sumir útgefendur hafi í einhverjum tilfellum túlkað lögin á annan hátt en eftirlitið.

„Þetta hefur verið sérstakt áherslumál allavega síðastliðin 4-5 ár. Það mætti kannski segja að í okkar rannsóknum höfum við í sumum tilfellum orðið vör við að útgefendur á markaði hafi litið svo á að þeir þyrftu ekki að birta innherjaupplýsingar fyrr en upplýsingarnar væru orðnar endanlegar. Lögin eru þannig að það á að birta innherjaupplýsingar eins fljótt og auðið er, jafnvel áður en það er orðið ljóst hvort viðkomandi atburður muni eiga sér stað.“

Frestunarheimild
Útgefanda er heimilt að fresta birtingu innherjaupplýsinga „til að vernda lögmæta hagsmuni útgefandans, svo framarlega sem frestunin er ekki líkleg til að villa um fyrir almenningi og útgefandi getur tryggt trúnað um upplýsingarnar“.

„Sem dæmi um tilefni til að fresta gæti útgefandi átt í viðkvæmum samningaviðræðum við annað fyrirtæki um kaup á því félagi. Að birta slíkar upplýsingar meðan á viðkvæmum samningaviðræðum stendur gæti eyðilagt slíkt ferli. Það gæti verið tilefni til að fresta birtingu, en þá verður að vera hægt að tryggja trúnað um upplýsingarnar. Ef það er ekki hægt eða upplýsingarnar leka þá þarf útgefandinn að birta upplýsingarnar tafarlaust,“ segir Páll.

Sé birtingu frestað þarf að tilkynna Fjármálaeftirlitinu það sérstaklega, en upplýsingarnar sjálfar þarf ekki að gefa upp. Frestunin er því á ábyrgð félagsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .