Hafi útlitið verið dökkt áður þá má segja að algjört svartnætti ríki núna varðandi framtíð Ítalíu. Svo er tekið til orða í Morgunpósti IFS Greiningar. Þar er tæpt á því að álag á skuldabréfa ítalska ríkisins hafi rokið upp í 7,5% í gær en það var ein mesta hækkun álagsins frá því evran var tekin upp.

Erlendir fjölmiðlar hafa verið iðnir við það síðustu daga að benda á að þegar álagið á skuldir Grikkja, Portúgala og Íra hafi rofið 7% múrinn þá hafi stjórnvöld leitað ásjár Evrópusambandsins um neyðaraðstoð.

Engu er logið um vandræði Ítalíu og hugsanleg áhrif landsins á alþjóðlega fjárfesta standi ríkisstjórnin ekki við skuldbindingar sínar. Í Morgunpóstinum er því haldið til haga að ítalski skuldabréfamarkaðurinn er sá þriðji stærsti í heiminum. Fjárfestar hafi því áhyggjur af vangetu stjórnvalda til að koma á nauðsynlegum efnahagslegum umbótum í landinu. Hvort nýjar kosningar, í kjölfar vænts brotthvarfs Berlusconi, í miðri efnahagslægð sé það sem landið þurfi á að halda er ósagt látið.

Í framhaldinu sé ekki ólíklegt að fjárfestar fari nú að horfa til skuldastöðu ríkja á borð við Spán og Frakkland.