Vísbendingar eru um að heldur rólegra verði um að litast á hlutabréfamarkaði í Bandaríkjunum í dag en fyrir helgi. Dow Jones-hlutabréfavísitalan rauf 14 þúsund stiga múrinn á föstudag og hefur annað eins ekki sést þar í landi síðan í október árið 2007. AP-fréttastofan segir hækkunina í Bandaríkjunum hafa smitað út frá sér á mörkuðum í Asíu í morgun. Fjárfestar eru mislangt komnir með að nudda stírurnar eftir því sem vestar dregur.

Nikkei-vísitalan í Japan hækkaði um 0,6% í nótt en hlutabréfavísitölur á helstu mörkuðum í Evrópu hafa verið beggja vegna núllsins.

Þá hefur FTSE-vísitalan í Bretlandi lækkað um 0,28%, Dax-vísitalan í Þýskalandi lækkað um 0,11% og Cac 40-vísitalan í Frakklandi farið niður um 0,12%.

Brúnin hefur er hins vegar enn þung yfir Spánverjum en aðalvísitalan í kauphöllinni í Madrid hefur í morgun lækkað um 0,82% og bætist það við rúmlega 1,5% lækkun á föstudag þegar flestar vísitölur voru á uppleið.