Hagnaður sænska bankans Nordea í fyrra nam 4,1 milljarði evra fyrir skatta og eftir skatta nam hagnaðurinn 3,1 milljarði evra. Er þetta töluvert betri árangur en greiningardeildir höfðu gert ráð fyrir. Hagnaður eftir skatta á fjórða ársfjórðungi nam 842 milljónum evra, en spár höfðu hljóðað upp á um 780 milljóna evra hagnað.

Í frétt Börsen segir að fjárfestar hafi tekið uppgjörinu mjög vel og aðeins fimm mínútum eftir opnun markaða hafði gengi bréfa bankans hækkað um 3,4% í Kaupmannahöfn. Christian Hede, sérfræðingur hjá Jyske Bank, segir að uppgjörið sé miklu betra en spáð hafði verið fyrir um.

Vaxtatekjur jukust um 5% milli ára og sama á við um þjónustutekjur. Alls jukust rekstrartekjur bankans um 8% á meðan rekstrarkostnaður lækkaði um 1% á milli ára. Rekstrarhagnaður jókst því um 16% og þótt skattar hafi hækkað um 9% á milli ára þá hækkaði hagnaður eftir skatta um ein 16%. Það er því ekki að undra þótt fjárfestar taki uppgjörinu fagnandi.