„Verð á olíu sveiflast til og frá. Eins og við höfum séð að undanförnu getur það auðveldlega lækkað. Það getur líka auðveldlega hækkað aftur. Mörg verkefni um vinnslu olíu úr leirsteini eru ekki lengur hagkvæm. Ef fallið verður frá þeim á næstu árum mun það hafa áhrif,“ segir Børge Brende, utanríkisráðherra Noregs, í samtali við Morgunblaðið .

Brende segir þar að mikil lækkun olíuverðs geti haft margvíslegar afleiðingar þegar hann er spurður hvort olíuhrunið hafi breytt fýsileika olíuvinnslu á erfiðum svæðum.

Hann bendir hins vegar á að um tveir milljarðar manna búi við takmarkaðan aðgang að raforku og án raforku verði engin efnahagsleg þróun. Þörfin fyrir raforku muni aukast á næstu áratugum.

„Hvað varðar fjárfestingu í framtíðinni er það undir fjárfestum komið en ekki Noregi sem ríki að taka þá áhættu. Það er undir olíu- og gasiðnaðinum komið,“ segir Brende.