Gengi hlutabréfa kanadíska farsímaframleiðandans BlackBerry hrundi um 20% fyrir opnun hlutabréfamarkaða vestanhafs í dag. Lélegt uppgjör á fyrsta ársfjórðungi skýrir gengishrunið.

BlackBerry tapaði 84 milljónum dala á fjórðungnum sem er talsvert betri afkoma en fyrir ári þegar fyrirtækið tapaði 510 milljónum dala. Þá námu tekjur 3,1 milljarði dala sem er 9% aukning á milli ára.

AP-fréttastofan segir BlackBerry hafa selt 6,8 milljónir farsíma á fyrsta ársfjórðungi. Ekki sé þó tilgreint hversu margir símanna séu af nýjustu gerð, BlackBerry 10, sem átti að keyra fyrirtækið áfram í harðri samkeppni á snjallsímamarkaði. Fréttastofan hefur eftir Thorsten Heins, forstjóra BlackBerry, að salan sé skammt á veg komin. Ekki er hálft ár síðan símarnir komu á markað.