„Að öllu óbreyttu ættu lágir vextir og lækkandi að ýta undir áhuga fjárfesta á öðrum fjárfestingarkostum en innlánum og ríkistryggðum skuldabréfum. Þar koma hlutabréf sterklega til greina," segir í markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa. Rifjað er upp að Horn fjárfestingarfélag, sem er í eigu Landsbankans, seldi í síðustu viku um 7% af heildarhlutafé Marels. Einnig að hlutafjárútboð Icelandair hófst á miðvikudaginn í síðustu viku og lýkur á Þorláksmessu.

„Fleira verður þó að koma til ef takast á að blása nýju lífi í íslenska hlutabréfamarkaðinn þar sem sá markaður er ákaflega veikburða. Það er ljóst að það þarf fleiri áhugaverð hlutafélög inn á markaðinn svo það takist," segir í markaðsfréttunum sem bendir á að stýrivextir á Íslandi eru í sögulegu lágmarki og því tímabært að velta  fyrir sér sambandi vaxta og hlutabréfamarkaða.