American Airlines gæti orðið gjaldþrota í annað skipti á síðusta áratug ef marka má skuldatryggingaálag félagsins. Gögn Bloomberg gefa til kynna að fjárfestar telja um 100% líkur á að flugfélagið fari í þrot á næstu fimm árum samkvæmt grein Financial Times .

Skuldatryggingarálag félagsins hefur hækkað um 4.000% á síðustu þremur mánuðum. Skuldatryggingarálag hefur verið notað sem mælikvarði á traust fjárfesta til skuldara. Því hærra sem álagið er því meiri hætta er á greiðslufalli að mati fjárfesta.

Sjá einnig: Forstjóri Boeing spáir þroti flugrisa

AMR Corporation, móðurfélag American Airlines, varð gjaldþrota árið 2011. American sameinaðist síðan US Airways árið 2013 og úr varð eitt stærsta flugfélag í heiminum.

Minna svigrúm vegna hás skuldahlutfalls

Skuldir American Airlines nema um 34 milljarða dollara sem er töluvert umfram skuldir Delta og United sem hafa bæði skulda um 23 milljarða dollara. Þessi staðreynd hefur ýtt undir vangaveltur fjárfesta um mögulegt gjaldþrot American.

Talsmaður American sagði að félagið væri að aðlagast núverandi ástandi og áætlar að draga úr rekstrarkostnaði og fjárfestingargjöldum um meira en 12 milljarða dollara. Hann áætlar einnig að félagið muni hafa 11 milljarða dollara í lausafé í lok annars ársfjórðungs.

Fjárfestingargjöld og endurkaup á eigin bréfum hafa leitt til hás skuldahlutfalls flugfélagsins. American fjárfesti 30 milljarða dollara á árunum 2013 til 2019 til að endurnýja flugflota félagsins eða um 500 flugvélar. Félagið keypti eigin hlutabréf upp á 13 milljarða dollara á árunum 2010 til 2019. Hagnaður félagsins hefur undanfarin ár verið lægri en hjá samkeppnisaðilum.

Philip Baggaley, greiningaraðili S&P, segir að stjórnendur American hafi einblínt á endurkaup eigin bréfa frekar en að lækka skuldir þar sem efnahagsreikningur félagsins hafi verið viðunandi miðað við rekstrarlíkan þess. „Þeir voru vel undirbúnir fyrir fellibyl sem kemur einu sinni á hverjum 10 árum en ekki fellibyl sem kemur einu sinni á hverjum 100 árum“, hefur FT eftir Baggaley.

Adrian Yanoshik, greiningaraðili Berenberg, segir að núverandi skuldir American gera félaginu erfiðara fyrir að fara í aðgerðir til að auka lausafé líkt og að selja flugvélar og leigja þær til baka.

Flugrisinn hefur fengið 5,8 milljarða dollara eða um 838 milljarða íslenskra króna í fyrsta skammti björgunaraðgerða bandaríska ríkisins. Doug Parker, forstjóri American, hefur sagt að félagið muni einnig taka lán upp á 4,8 milljarða dollara á um 4% vöxtum.